Rannsóknin í heild: http://skemman.is/handle/1946/17911

Lokaverkefni: "„…þegar þeim líður illa...þá gerist ekkert í náminu.“ Upplifun náms- og...

Lokaverkefni til MA–gráðu í náms- og starfsráðgjöf eftir Elínu Ólafsdóttur.

Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Glefsur úr rannsókninni með leyfi höfundar:

bls. 3
Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í upplifun náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum af notkun aðferðar Baujunnar. Baujan er aðferð til að vinna með tilfinningavanda ráðþega. Einnig var markmið að kanna kenningarlegan grunn Baujunnar og hverjar væru forsendur vals náms- og starfsráðgjafa á aðferðinni.
Rúmlega 100 náms- og starfsráðgjafar hafa sótt fagnámskeið Baujunnar frá árinu 2003. Beitt var eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem gerðar voru þátttökuathuganir og tekin viðtöl við sjö náms- og starfsráðgjafa sem nýta sér, eða hafa nýtt sér aðferð Baujunnar í starfi sínu í grunnskóla. Helstu niðurstöður voru þær að upplifun og reynsla náms- og starfsráðgjafa á notkun Baujunnar í starfi var jákvæð.

bls. 20
Grundvallarhugsun Baujunnar er að: „Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin líðan.“ (Guðbjörg Thóroddsen, 2006, bls. 9). Baujan snýst um að einstaklingurinn þarf að vera meðvitaður um hvaðan hann sækir lífsorku sína. Er hann að sækja hana frá „stjórnstöðinni í maga“ þar sem slökun er? Eða er hann að fá orkuna frá skyndiorku, þ.e. grunnöndun sem er varatankur orkunnar? Fólki er ekki ætlað að lifa á skyndiorkunni en hún er okkur nauðsynleg til að grípa til undir álagi og við áföll. Með djúpöndun og slökun vinnur einstaklingurinn úr tilfinningum sínum og áföllum og byggir sig upp. Slökun fylgir hugarró sem er forsenda sjálfsskoðunar og úrvinnslu tilfinninga og einstaklingurinn þarf að lifa í núinu, til að vera hæfur til að elska og njóta lífsins á líðandi stundu (Guðbjörg Thóroddsen, 2003, 2006, e.d.-c.).

bls. 43
Upplifun á notkun Baujunnar Upplifun á aðferðinni var jákvæð og grunnur hennar og hugsun notuð þótt einhverju væri bætt við eða sleppt við notkun aðferðarinnar. Einhverjir viðmælendur notuðu Baujuna sem forvörn en flestir notuðu hana sem verkfæri vegna erfiðleika nemenda. Flestir viðmælendur nýttu sér aðferðina í heild í hópráðgjöf þar sem yfirleitt var farið í gegnum efnið í réttri röð í sex skipti (þrep) og þeim þótti gott og leiðbeinandi að hafa efnið allt á einum stað og Berglindi fannst það hjálplegt:…svona eins og ég segi, þetta er imbaproof, það er bara hver einasti tími vel skipulagður..ooo..og hvernig maður fer í gegnum þetta svo fer maður náttúrulega í gegnum þetta. Þeir viðmælendur sem höfðu langa reynslu af notkun Baujunnar höfðu bætt einhverju inn í ferlið, sem þeir höfðu lært eftir að þeir byrjuðu að nota Baujuna en þó væri grunnurinn alltaf Baujan

bls. 44
Einn viðmælandi sagðist hafa kennt Baujuna í hóp fyrst en fór svo að nota meira fyrir einstaklinga og er með um 15–20 yfir veturinn í einstaklingstímum í Baujunni.

bls. 45
Valið í hópana var misjafnt, allt frá því að heill árgangur var tekinn á námskeið eða kennarar og foreldrar báðu um að börn færu á Baujunámskeið. Valið var oftast í samráði við aðra starfsmenn skólans. Einnig var algengt að börnin bæðu sjálf um að komast á námskeið. Innan allra skólanna þar sem Baujan var notuð af viðmælendum var hún orðin þekkt inngrip og oft mynduðust biðlistar á Baujunámskeið. Algengast hjá viðmælendum var að fara ekki neðar en 6. bekk með hópráðgjöf en yngri nemendur voru þá teknir í einstaklingsviðtöl. Viðmælendum fannst börnin áhugasöm og að þau vildu vera á námskeiðinu því þau upplifðu samkennd í hópnum. Upplifun allra viðmælenda af hópráðgjöfinni var góð og fleiri en einum viðmælanda fannst námskeiðin mjög góð því börnin lærðu ekki bara á eigin tilfinningar heldur kynntust þeir sjálfir krökkunum vel. Hefði það þau áhrif að þau virtust eiga auðveldara með að koma til þeirra seinna í einstaklingsviðtöl ef á þyrfti að halda. Berglind upplifði að hópráðgjöfin sem slík hjálpaði þátttakendum því að þá heyrðu þátttakendur hvernig öðrum liði og áttuðu sig á að þau væru ekki ein um vanlíðan: Ef þú ert í svona fámennum hópi, það er talað um, í þessu námskeiði þá er maður með fjóra og þegar þú ferð að segja frá einhverju...sem þú ert að upplifa og fást við...þá já „hún er upplifa þetta sama og ég“ „ Ég þekki þessa tilfinningu, ég er ekki einn í heiminum með hana“.. það er ákveðin...hjálp í því líka skilurðu, „ég er ekkert skrýtin, ég er ok...það eru fleiri sem hugsa svona.

bls. 46
Nokkrir viðmælendur sögðust rifja upp í einstaklingsviðtölum það sem lært var í Baujuhópráðgjöf en Hildur sagðist vitna í námskeiðin í einstaklingsviðtölum ef viðkomandi væri búinn að fara á Baujunámskeið. Oft krakkar sem eru búnir að koma á námskeið...koma svo kannski sjálf seinna...hvort sem það er prófkvíði eða eitthvað...þá getur maður svo oft vitnað í...alveg...manstu þegar við vorum að tala um þetta...ef þau eru búin að fara á Baujuna.“ Hjá nokkrum viðmælendum bárust beiðnir frá foreldrum, kennurum eða öðrum um að viðkomandi barni liði ekki vel eða tilefnið var að viðkomandi barn vantaði sjálfsstyrkingu. Ef ekki næðist hópur, sem oft getur verið snúið vegna tímasóknar þeirra, þá fer viðkomandi barn í einstaklingstíma í Baujunni. Maríu sagðist alltaf detta Baujan í hug þegar talað væri um sjálfsstyrkingu nemenda og því væri það aðferðin sem hún byði uppá. Hún sagðist blanda öðru inn í aðferðina enda margt lært á sínum starfsferli en grunnurinn væri úr Baujunni. „…grunnurinn er alltaf Baujan.“ Þórunn tók í sama streng og segir varðandi Baujuna að henni finnist „…það svona grunnur…“ í sjálfsstyrkingu og tilfinningavinnu.

bls. 52 Skortur á inngripum
Berglind sagðist hafa fundið fyrir vöntun á efni þegar hún byrjaði að vinna sem náms- og starfsráðgjafi. Þá hafi hún átt að halda sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir unglingastigið og þar sem hún hafði ekkert efni til þess setti hún fyrirspurn inn á vef náms- og starfsráðgjafa. Hún spurði hvort „…einhver vissi um eitthvað gagnlegt til þess að nota í grunnskóla.“ Einhver svaraði henni og benti henni á Baujuna og hún fór á fagnámskeið upp úr því. Valgerður tók í sama streng og lýsti því að það hafi ekki verið mikið til af inngripum eða aðferðum við tilfinningavinnu þegar hún byrjaði að vinna sem náms- og starfsráðgjafi og „....það var ekki mikið úrval...í rauninni ekki þegar ég byrjaði sko..en þannig að Baujan...ég fór fljótlega á Baujuna, Baujunámskeið....mér fannst ég fá gott..góð verkfæri þar sko...og ég tók námskeið svolítið bara sem pakka.“ Þórunn hafði sömu sögu að segja, hún var búin að leita lengi og Baujan var fyrsta „tækið“ sem hún fékk í hendurnar

bls. 54
Ef málin eru ekki það alvarleg að vísa þurfi þeim til fagaðila þarf úrræði til að vinna með málin. Einn viðmælandi orðaði það svo að „…ég fann að ég var óörugg í þessum vandamálum nemenda...vantaði eitthvað svona tæki. Þannig að ég sló til [og fór á Baujunámskeið] og ég held að það hafi verið bara svona...tilviljun í raun og veru. Ég bara... sé allt gott við Baujuna.“ Annar viðmælandi sagðist velja Baujuna „…því það er svo margt gott í henni:“…mér finnst þessi aðferð bara.. vera mjög góð nálgun...til að taka utan um tilfinningar....og og vinna með þær.. aðgreina...svolítið svona sortera í kollinum og finna pláss fyrir gleðina þannig... að.. mér finnst þetta mjög góð aðferð til þess. Annar viðmælandi hafði setið kynningu á Baujunni og „...heillaðist rosalega af þessu...“ og því fór hún á fagnámskeið og framhaldinu lýsti hún svona: „ ...ég demdi mér bara strax útí að fara að nota þetta og hef notað það allar götur síðan.“ Hildur sagðist hafa valið Baujuna því: Baujan er náttúrlega bara svona leiðbeinandi...í tilfinninga...já...svona leiðbeinandi verkfæri í tilfinningakennslu...mér finnst það...það hjálpar mér að að kenna krökkunum að þekkja eigin tilfinningar og...og..bara þú veist að læra þessi hugtök líka og vita hvað þau þýða og þetta svona hjálpar þeim að....þetta er svona æfing í að tjá sig...og líka bara að vita..hvernig bregst maður við... Þórunn sagðist nota Baujuna af því hún virkaði vel á börnin, þau lærðu að „...þetta er þín ábyrgð, þú berð ábyrgð á þessu.“ Öðrum viðmælanda fannst margra ára notkun á Baujunni segja það sem segja þurfti, hún væri ekki að nota hana ef hún væri ekki ánægð með aðferðina: “…það eru meðmælin…“

bls. 55
Það sem tröllríður starfi námsráðgjafa í dag, árið 2014, janúar eða febrúar 2014 er kvíði, kvíði, kvíði, kvíði, kvíði, kvíði og ...í hruninu var mjög mikið..til dæmis í Finnlandi...fimm árum eftir hrun kom mikill kvíðavandi í þjóðfélaginu... og þetta er nákvæmlega sama, 2013 helltist yfir kvíði yfir í skólum landsins. Henni fannst Baujan frábært verkfæri til að vinna með þennan aukna kvíða enda væri hann algengastur sem vandi barna og vísaði í ráðstefnu á vegum Barna og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL).

bls. 56
Einn viðmælendasagði það skilyrði að „...maður þurfi að vera svolítið opinn fyrir þessum leiðum og hafa áhuga á bara mannrækt og ..bara manneskjunni og tilfinningum..og því öllu.“ og annar var þessu sammála og fannst eftirfarandi: …jú auðvitað þarf maður að hafa einhvern vissan skilning...á...andlegri líðan og...allt það...þannig að ...maður þarf að hafa einhvern ákveðinn bakgrunn til þess að ...finnst mér...til þess að geta unnið með Baujuna. María sagði að það væri sinn persónulegi áhugi að læra og lesa sér til um mannrækt en sagði að hún teldi að það þyrfti ekki grunn í mannrækt til að kenna Baujuna. Hún sagði: Allir námsráðgjafar geta notfært sér þetta.. en það skemmir ekkert þó þú hafir svolítið pælt í öndun og...og slökun og svona sko! ....En það þarf ekki. Þetta er bara rosagóður pakki fyrir hvern sem er og ef áhugi er til staðar, þá, fyrir manneskju sem fer á námskeið, þá nýtist það henni. Hinsvegar taldi hún að grunnur hennar hefði líklega hjálpað til að hún „…skellti sér útí þetta[að vera með Baujunámskeið] einn tveir og tíu.“

bls. 58 Upplifun á notkun Baujunnar
Upplifun náms- og starfsráðgjafa af notkun aðferðar Baujunnar vegna tilfinningavinnu var jákvæð. Efni Baujunnar þykir skipulagt og gott að hafa möppu með öllum þrepunum og verkfærum. Flestir viðmælendur höfðu nýtt sér aðferðina í hópráðgjöf og fannst það gott til að kynnast krökkunum vel og þau þóttu hafa gott af því að sjá að öðrum leið með svipuðum hætti og tjáðu sig þá frekar. Einnig þótti hópráðgjöfin hafa jákvæð áhrif á samkennd eða samhygð þeirra.

bls. 62
Valið á aðferð Baujunnar og notkun hennar í mörg ár fannst fleiri en einum viðmælanda sýna að aðferðin virkaði vel og að„…[Viðmælandi] væri ekki að nota hana ef [hann] væri ekki ánægð[ur] með aðferðina….það eru meðmælin.“

Bls. 65
Samantekt
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að Baujan og verkfæri hennar eru hagnýt og einföld aðferð til að hjálpa einstaklingum að vinna með tilfinningar sínar. Upplifun náms- og starfsráðgjafa á notkun Baujunnar var jákvæð og rannsóknin sýndi að mínu mati að Baujan hefur sterkan grunn í hugmyndafræði Dalai Lama, kenningum William Glasser, tilvistarkenningunni og jógafræðum og því geta náms- og starfsráðgjafar og annað fagfólk óhikað nýtt hana sem aðferð til tilfinningavinnu í starfi sínu.