„Sjálfsmatið er líka lykillinn að skilningi á sjálfum okkur og öðrum.Ef frá eru talin vandamál sem eiga sér líffræðilegar orsakir get ég ekki ímyndað mér nokkurt sálfræðilegt vandamál sem ekki er hægt að rekja til afleitrar sjálfsmyndar- og þá eru meðtalin kvíði og þunglyndi, sjálfsmorð, tilfinnigalegur vanþroski, kynlífstengd vandamál, hræðsla við náin kynni, hræðsla við velgengni, lélegur árangur í námi, misnotkun á áfengi og fíkniefnum glæpir og ofbeldi…. Gott sjálfsmat er höfuðskilyrði fyrir góðu lífi.“ (Nathaniel Branden. Betra sjálfsmat. bls 14. JPV forlag 2003)

Ég kýs að hafa þessi orð Brandens sem inngang að þessum kafla námskeiðsins sem beint til þeirra sem „standa vaktina“ þeirra sem nú hafa tileinkað sér þessar auðveldu leiðir Baujunnar til sjálfsuppbyggingar og eru að fara að leiðbeina öðrum.

Í Baujunni er farin sú leið að lækningarmáttur líkamans (hugans) er virkjaður. Í einfaldleik sínum miða aðferðir Baujunnar að því að einstaklingurinn fari sjálfur að lækna sig,- út frá sínum forsendum. Með slökun fær hugurinn næði til að vinna úr tilfinningum, aðstæðum og upplifunum. Í heilunarhæfileika þessum, sem okkur er öllum búinn frá náttúrunnar hendi, er hjálp við þeim sálrænu vandamálam að finna sem ekki stafa af lífeðlisfræðilegum ástæðum. Gengið er út frá því að mennirnir séu í sínu innsta eðli góðir, að kærleikurinn sé okkar grundvöllur og að öllum sé því eðlilegt að leita vellíðunar og hamingju.

Baujan stuðlar að virkri og vakandi sjálfsvitund sem er forsenda aðgerða og breytinga á líðan. Hún eflir tilfinningagreind bæði þátttakenda og kennara. Forsenda þess að geta kennt og leiðbeint öðrum í tilfinningavinnu er að vera sjálfur í góðum tengslum við tilfinningar sínar.Vera vel meðvitaður um líðan sína og athafnir. Tilfinningakennsla krefst tilfinninganæmni, innsæis og þekkingar.Leiðbeinandi þarf að vera góður hlustandi sem sínir virðingu og samhygð. Æfingin skapar meistarann!!

Sjálfsöryggi er undirstaðan að vellíðan! Einstaklingur með gott sjálftraust og sjálfsvirðingu er sáttur við sjálfan sig og aðra. Hroki, mont og ofmat ber vitni um lélega sjálfsmynd. Sjálfseyðandi hegðun er afleiðing vanmetakenndar. Hversu margt slæmt hlýst ekki af minnimáttarkennd og skorti á sjálfsöryggi!

Alla ævi er maður að „tékka“ á sjálfum sér viðbrögðum, líðan og hegðun. Alla ævi er verið að skoða og lagfæra, aðlaga tilfinningar, skoða sjálfsöryggi sitt og styrkja sjálfsmynd. Ekkert ástand okkar er endanlegt heldur alltaf breytingum undirorpið . Heiðarleiki gagnvart okkur sjálfum skilar síðan því hve langt við komumst í aukinni sjálfsvirðingu og þroska.

Námskeið í Baujunni kennir bara aðferðirnar.

Ef við erum sæmilega fær um sjálfsskoðun og að vinna úr tilfinningum okkar komumst við heilli frá erfiðleikum og áföllum. Við áföll getur sjálfsmyndin brotnað, skekkst eða veikst. Áríðandi er að kunna leiðir til að byggja sig upp að nýju svo við séum fær um að taka þátt í lífinu á heilbrigðan hátt þar sem sjálfsmynd okkar er það traust að hún nýtist okkur sem sá styrkur sem hún þarf að vera hverjum einstaklingi.

Tilfinningavinnu og sjálfskoðun ættum við að gera að eðlilegu og sjálfsögðum þætti í öllu uppeldi!!!

Helsta leið eða lausn barna okkar sem eiga í erfiðleikum yrði þá ekki sú að leita í flóttaleiðirnar,- fíkn og alls kyns áráttuhegðun t.d. í drykkju, eiturlyf, ofbeldi, átröskun, trúfélag eða að þeim finnist í örvæntingu sinni sjálfsvíg vera eina lausnin.

Vitað er að maður með brotna eða skerta sjálfsmynd er í mestri hættu hvað varðar áhættuhegðun eða sjálfsvíg.

Að þekkja sjálfan sig eru bestu forvarnirnar ! Byrgjum brunninn!!

Baujan fellur vel að allri heimspeki “ Uppbyggingarstefnunnar „(höf. Diane Gossen ) Í þeirri stefnu er höfðað til innri hvatar einstaklingsins til að bera ábyrgð á eigin líðan og hegðun. Að höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins á eigin líðan og hegðun er grundvallarhugsun Baujunnar.

Að endingu langar mig til að vitna í bók Dalai Lama, Bókina um viskuna og kærleikann:

„Ef við gerum okkur grein fyrir því hvers við erum megnug og treystum á mátt okkar getum við skapað betri heim. Reynsla mín er sú að þar skipti sjálfstraustið sköpum. Ég á ekki við blint sjálfstraust heldur vitneskjuna um hvers við erum megnug. Á þeim grundvelli getum við breytt okkur með því að efla með okkur kosti og draga af bestu getu úr göllunum.“