Baujan er árangursrík sjálfsstyrkingaraðferð sem byggir á reynslu og námi Guðbjargar Thoroddsen (Bauju) en hún er höfundur aðferðarinnar. Með því að tileinka sér Baujuna verður fólk tengdara sjálfu sér tilfinningalega og færara um að stjórna líðan sinni, hegðun og aðstæðum. Um þessar mundir er Baujan 10 ára og í því tilefni langaði okkur til að forvitnast aðeins um aðferðina og konuna á bak við hugmyndina.

Hver er Guðbjörg?

„Ég er leikari, kennari og ráðgjafi. Fædd 1955 í Reykjavík en fór alltaf í sveit á sumrin eins og áður var. Varð stúdent frá MR og fór á sumrin í fiskvinnu út á land eins og einnig tíðkaðist. Kenndi í eitt ár áður en ég fór í Leiklistarskóla Íslands. Vann með skólanum við ráðgjafavinnu. Vann síðan við leiklist og ráðgjöf þar til ég skapa Baujuna og þróa. Tók þá kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands og hef kennt Baujuna í 10 ár.“

Hvað er Baujan?

„Baujan er sjálfsstyrking sem byggir á slökunaröndun og tilfinningavinnu. Hún miðar að því að ná í grunninn sinn, „leiðrétta sig“ og byggja sig upp eða styrkja sig. Hún sækir í lækningarmátt líkamans sem við höfum öll innra með okkur. Hún er fljótvirk og árangursrík en umfram allt auðveld aðferð í sjálfstyrkingu þar sem tilfinningavinna er alltaf tengd öndun okkar. Þar sem Baujan tengist öndun gleymist hún ekki heldur verður okkur sjálfsagt ferli eftir að við höfum vanið okkur á hana. Kærleikur og allar góðar tilfinningar koma frá slökunaröndun, frá maganum, og þaðan sækjum við líka okkar innri styrk. Baujan byggir á kærleikanum því hann okkar mesti styrkur. Ofbeldi getur aldrei verið styrkur. Ástæða þess að Baujan er öflug aðferð er meðal annars vegna þess að hún er sjálfsvinna. Alla þyrstir í vellíðan og allir hafa áhuga á sjálfum sér. Með Baujunni þóknumst við ekki einum eða neinum nema sjálfum okkur. Það er stórkostlegur hæfileiki að geta haft stjórn á líðan sinni en vera ekki reköld sem sveiflast til og frá með tilfinningum.“

Hvernig þróaðist þessi aðferðarfræði?

„Hún er sjálfsprottin og þess vegna virkar hún svona vel. Fyrir um 15 árum þurfti ég að vinna með sjálfa mig, komast út úr meðvirkni, ná í grunninn minn og byggja mig upp eftir áföll og erfiðleika eins og við lendum öll í einhvern tímann á ævinni. Mér fannst lítið bitastætt til af efni og aðferðum svo ég fer að leita innra með mér. Ég varð vör við að göngutúrar úti í náttúrinni með hundinum mínum höfðu góð áhrif og enn betri ef ég kastaði öllum erfiðu tilfinningunum frá mér á göngunni. Þá náði ég fínni slökun og átti auðveldara með að vinna úr tilfinningum þegar heim var komið. Þarna var stóri lykill Baujunnar kominn.

Síðan fer ég meðvitað og ómeðvitað að þróa með mér einhverja aðferð. Finna út auðvelda aðferð til að vinna vel úr erfiðu tilfinningunum og finna litlu lyklana 5 sem styðja allir við sjálfsuppbygginguna. Ég varð gáttuð þegar ég áttaði mig á að ég hefði rambað á svona góða og auðvelda aðferð og mér fannst og finnst ennþá að við ættum öll að læra hana í bernsku. En þegar ég var að alast upp var Baujan ekki til! Ég starfaði sem sviðsleikari í 25 ár og byggi aðferðina í raun á sama grunni og leikari gerir ómeðvitað til þess að geta leikið. Ég starfaði alltaf eitthvað sem ráðgjafi með leiklistinni og ákvað að prófa aðferðina á krökkunum þegar ég var að vinna á Stuðlum. Hún gaf það góða raun að ég fann að þetta var aðferð sem gagnaðist ekki bara mér heldur ekki síður öðrum. Þetta var árið 2000.

Þá fór ég að kenna í grunnskóla og var svo heppin að fá í hendurnar sérkennslubekk þar sem heldur betur þurfti að hressa upp á sjálföryggið. Þarna fer ég að kenna Baujuna fyrir alvöru. Ekki bara börnunum í bekknum heldur var farið að senda til mín bæði þolendur og gerendur eineltis sem þurftu leiðbeiningar við að byggja sig upp. Næsta vetur réð ég mig í marga grunnskóla eingöngu til að kenna Baujuna. Alls staðar var mikil ánægja með aðferðina. Námsráðgjafar sem kynntust árangri hennar hrifust af aðferðinni og vildu læra Baujuna. Að þeirra ósk hóf ég námskeið fyrir leiðbeinendur árið 2003. Nú hafa yfir 100 námsráðgjafar sótt slík námskeið en auk þess hefur mikill fjöldi annars fagfólks sótt námskeiðin, t.d. hjúkrunarfólk, kennarar, félagsráðgjafar og djáknar. Það eru margir Baujuleiðbeinendur sem kenna Baujuna um allt land. Sjálfshjálparbók með aðferðinni kom út 2008 og á ensku 2010. Bókin er sett upp eins og námskeið. Í henni eru sex þrep sem fólk fylgir, einu á viku og lætur síðan viku líða á milli til að samsamasig efninu og tengjast.“

Hverjum nýtist Baujan?

„Hún nýtist öllum. Hún kemur vel út fyrir alla aldurshópa en hver og einn kemst þangað sem þroski hans og aðstæður leyfa. Baujan hefur reynst vel til hjálpar þolendum og gerendum eineltis og annars ofbeldis. Hún hjálpar fólki við að komast frá meðvirkni, sigrast á kvíða og þunglyndi, við að fá betri stjórn í ofvirkni, komast út úr vítahring fíknishegðunar eða einfaldlega til að fá meira sjálfsöryggi. Með Baujunni verður auðveldara að setja sig í spor annarra og samkennd eykst. Ég hef nú þegar kennt aðferðina þúsundum manna, börnum og fullorðnum bæði hér á Íslandi en líka í Afríku. Sjálfstraust er undirstaða alls í lífinu.“

Hver hefur árangurinn verið?

„Ótrúlega góður! Það er mjög gefandi að vinna með Baujuna. Í fjórða tíma spyr maður „Eru allir búnir að komast að því að maður stjórnar líðan sinni sjálfur?“ Flestir segja já og þá hafa þeir hinir sömu verið að nota lyklana. Ef einhver segir nei ráðleggur maður honum að nota lyklana því hann hafi ekki verið að því! Í vinnu minni með Baujuna horfi ég upp á kraftaverk á hverjum degi. Ég á mér þá hugsjón að Baujan breiðist út, heimshorna á milli, svo allir geti nýtt sér þessa einföldu og auðveldu aðferð til sjálfsstyrkingar.“

Hvernig kemst maður á námskeið?

„Best er að fara inn á heimasíðuna http://www.baujan.is/ og skoða þar alla möguleika. Þar er boðið upp á ókeypis kynningar fyrir hópa og kennslufyrirlestra. Ég er með einkatíma þar sem fólk vinnur með sjálft sig eftir Baujunni. Námskeið þar sem ég fer í gegnum allt efni Baujunnar, hvernig hún er uppbyggð og hugsuð er ég alltaf með annað slagið og eru næstu námskeið alltaf sett á heimasíðuna. Þau námskeið eru fyrir alla. Fyrir þá sem ætla sér að kaupa aðferðina og gerast Baujuleiðbeinendur er Ljósabaujan í framhaldi af grunnnámskeiðinu. Ljósabaujan er einungis fyrir fagfólk. Þar er handleiðsla og réttindi fást til kennslu.Ég vil endilega að eldri leiðbeindur taki Ljósabaujuna til að fá handleiðslu og teljast þar með betri og öruggari Baujuleiðbeinendur. Þeir sem taka Ljósabaujuna fá nafn sitt inn á heimasíðu. Til að komast á námskeið eða handleiðslu er bara að hafa samband við mig í síma: 6996934 eða senda mér netpóst á bauja@mi.is.

Hvað er framundan hjá þér?

„Það er mikið framundan eins og vanalega. Ég er alltaf með hópkennslu (4-5 manns) í tveim grunnskólum, einkatíma, hópkennslu í Hlutverkasetri, Vinnumálastofnun og verið er að athuga með námskeið hjá Velferðarsviði og hjá símenntunarstofnunum. Grunnnámskeið Baujunnar verður hér í Rvk. á næstunni og er orðið fullt á það. Næsta námskeið í Rvk.verður í lok nóv. Námskeið hjá Símey, Akureyri 29. okt. Fræðslumiðstöð Ísafirði 12. nóv. Sauðárkróki 19. nóv. og í Rvk. 26. nóv. og verið er að athuga með námskeið á Austfjörðum en þar hef ég verið með 3 námskeið til þessa. Og svo handleiðsla alltaf inn á milli. Semsagt nóg að gera!“