Af bókarkápu

Sjálfsöryggi er undirstaðan að vellíðan! Einstaklingur með gott sjálfstraust og sjálfsvirðingu er sáttur við sjálfan sig og aðra. Sjálfseyðandi hegðun er afleiðing vanmetakenndar og vanlíðunar. Hroki og ofbeldi bera vitni um lélega sjálfsmynd og lítið sjálfsöryggi. Baujan stuðlar að virkri og vakandi sjálfsvitund sem er forsenda aðgerða og breytinga á líðan. Hún skerpir og eflir tilfinningagreind. Allir þurfa að vera í góðum tengslum við tilfinningar sínar, vera vel meðvitaðir um líðan sína og hegðun. Við sköpum veruleika okkar sjálf. Alla ævi þurfum við að „ tékka” á sjálfum okkur, viðbrögðum, líðan og hegðun. Alla ævi þurfum við að vera að skoða og lagfæra, aðlaga og vinna úr tilfinningum okkar, skoða sjálfsöryggið og styrkja sjálfsmyndina. Heiðarleiki gagnvart sjálfum okkur skilar því síðan hve langt við komumst í aukinni sjálfsvirðingu og þroska. Fjöldi fagfólks hefur lært aðferð Baujunnar í sjálfsuppbyggingu og er nú að kenna skjólstæðinum sínum hana til að styrkja sjálfsöryggi og velllíðan þeirra. Guðbjörg Thóroddsen er menntaður leikari og kennari. Ásamt leiklist og kennslu hefur hún starfað sem ráðgjafi í fjölda ára. Baujuna hefur hún þróað út frá menntun sinni og reynslu.
Kafli úr bókinni Baujan (The Buoy)

Inngangur – Til þeirra sem ætla að finna Baujuna sína.

Ef frá eru talin vandamál sem eiga sér líffræðilegar orsakir get ég ekki ímyndað mér nokkurt sálfræðilegt vandamál sem ekki er hægt að rekja til afleitrar sjálfsmyndar – og þá eru meðtalin kvíði og þunglyndi, sjálfsmorð, tilfinningalegur vanþroski, kynlífstengd vandamál, hræðsla við náin kynni, hræðsla við velgengni, lélegur árangur í námi, misnotkun á áfengi og fíkniefnum, glæpir og ofbeldi…. Gott sjálfsmat er höfuðskilyrði fyrir góðu lífi.

(Nathaniel Branden. Betra sjálfsmat. bls 14. JPV forlag 2003)

Ég kýs að hafa þessi orð Brandens sem inngang að þessum kafla sem beint er til þeirra sem nú ætla að tileinka sér auðveldar aðferðir Baujunnar til sjálfsuppbyggingar.

Í Baujunni er farin sú leið að lækningarmáttur líkamans, hugans, er virkjaður. Það er gert með kviðaröndun, slökunaröndun. Í einfaldleik sínum miða aðferðir Baujunnar að því að einstaklingurinn „lækni” eða styrki sig sjálfur, -út frá sínum forsendum. Með slökun fær hugurinn næði til að vinna úr tilfinningum, aðstæðum og upplifunum. Í heilunarhæfileika þessum, sem okkur er öllum búinn frá náttúrunnar hendi er hjálp að finna við þeim sálrænu vandamálum sem ekki stafa beint af lífeðlisfræðilegum ástæðum.

Í Baujunni er gengið er út frá því að mennirnir séu í sínu innsta eðli góðir, að kærleikurinn sé grundvöllur okkar og að öllum sé eðlilegt að leita vellíðunar og hamingju. Baujan er því sjálfstyrking sem byggir á innri styrk, á kærleikanum.

Baujan er sjálfsprottin þ.e. ég hef notað hana sjálf við að byggja mig upp og þekki leiðir hennar því innan frá. Hún hefur nýst mér vel og er aðferðin orðin þaulreynd eftir margra ára kennslu á henni. Nemendur sem hafa lært Baujuna skipta nú orðið nokkrum þúsundum. Kraftaverkin sem ég hef persónulega orðið vitni að þegar þessi aðferð er notuð eru orðin ótalmörg.

Í Baujunni er lögð áhersla á að bataleiðir séu að sem mestu leyti sjálfsprottnar og þess vegna sem varanlegastar. Engum má líða eins og verið sé að ryðjast inn á þeirra helgasta yfirráðasvæði eða ráðskast með þá. Baujan hefur lyklana að dyrum sem ganga að húsi hvers og eins, þar sem hver er sinn húsbóndi og hver er sinnar gæfu smiður. Baujan ræður þar engu inni fyrir en gefur einungis ráð. Það eru húseigendurnir sjálfir sem ákveða hvort þeir nýti sér þau eða ekki!

Þessi hugsun er forsenda þess að Baujan virkar og gengur svo vel sem raun ber vitni. Aðferðin er auðveld eftir að farið hefur verið yfir þrepin 6 í Baujunni, þegar:

 • við erum farin að gera okkur betur grein fyrir tilfinningum okkar,
 • við erum farin að hugsa um tilfinningar á hlutlægan hátt, þ.e. höfum gert þær áþreifanlegar,- og getum þess vegna kastað þeim hingað og þangað frá okkur og geymt þær eða gleymt!
 • við erum fær um að ná í slökunaröndun þar sem stjórnstöðin að líðan okkar er,
 • við erum orðin meðvituð um öndun okkar, hvort við erum að anda með brjóstöndun eða niður í maga í slökunaröndun,
 • við höfum gert okkur grein fyrir undirstöðunni:
  1. að virða og elska okkur sjálf,
  2. að hugsa jákvætt og lausnamiðað,
  3. að fara kærleiksleið í stað ótta- og flóttaleiðar, þá einfaldlega fara hlutirnir að gerast!

Lækning líkamans hefst og leit eftir jafnvægi og vellíðan fer í gang. Flestir fara þá meðvitað eða ómeðvitað að vinna úr tilfinningum sínum og sjálfsuppbygging hefst. Ómeðvitað, því ef vel tekst til sér undirvitundin um uppbygginguna og úrvinnsluna að mestum hluta en við þurfum aðeins að sjá um að réttu verkfærin og aðferðirnar séu notaðar. Baujan gefur lyklana en hver og einn vinnur fyrir sjálfan sig að uppbyggingunni. Þess vegna er mikilvægt að tímaröð og aðferðir Baujunnar séu réttar og er hvert atriði hennar jafnmikilvægt og ekki hvað síst sífelld endurtekningin,: „..brosið,…augu,…. rödd,…hjólið,… slæðan,….öndun.”

Að jafnaði og ef allt er eðlilegt vex sjálfsöryggi og vellíðan þeirra sem tileinka sér aðferðir Baujunnar en mundu að hver einstaklingur ber það úr býtum sem vilji hans, þroski og aðstæður bjóða upp á hverju sinni.

Með sífelldum endurtekningum Baujunnar komumst við ekki hjá því að fara að fylgjast með líðan okkar og athöfnum. Það síast inn lærdómur sem flestir festa sér einhvers staðar í minni jafnvel þó aðstæður dagsins í dag bjóði ekki upp á fulla nýtingu aðferðarinnar. Samt sem áður fæst alltaf töluverður grunnur í tilfinningaþekkingu sem hægt er að byggja á síðar meir með áframhaldandi vinnu. Baujan er ekki meðferð heldur kennsla í sjálfsskoðun og sjálfsvinnu. Hún er aðferð sjálfstyrkingar þar sem slökunaröndun er stóri lykillinn að sjálfsuppbyggingu.

Sú hugarró sem fylgir slökun er forsenda eðlilegrar sjálfsskoðunar, tilfinningaúrvinnslu og sjálfsuppbyggingar. Þennan lykil fékk ég í hendur í leiklistinni þar sem hann er aðferð leikarans við alla hans vinnu. Ég hef heimfært hann upp á líðan okkar sjálfra. Með aðferð Baujunnar fæst sú vitneskja að við getum sjálf stjórnað líðan okkar og hegðun. Þegar við erum orðin fær um að tengja líðan við öndun og vitum að stjórnstöðin að sjálfum okkur er niðri í okkar eigin maga, í slökun en ekki í annarra maga þá förum við að styrkjast !